Norðmenn reikna með að fjárfesta fyrir 14 milljarða norskra króna á þessu ári og stefna á að fimmfalda umfang sjávarútvegs á næstu áratugum.
Frá árinu 2000 til ársins 2018 hafa Norðmenn fjárfest fyrir samtals 115 milljörðum norskra króna í sjávarútvegi, en sú fjárhæð samsvarar um það bil 1.700 milljörðum íslenskra króna.
Reiknað er með að á árinu 2019 verði 14 milljarðar norskra króna til viðbótar, eða um 210 milljarðar íslenskra, notaðar í fjárfestingar í norskum sjávarútvegi.
Fjárfestingin hefur aldrei verið meiri en nú, og á það bæði við um fiskveiðar og fiskeldi. Á seinni árum hafa fjárfestingarnar í vaxandi mæli snúist um betri og fullkomnari tækjabúnað en áður fyrr fóru þær einkum í kaup og smíði á bátum og skipum.
Þetta kemur fram í skýrslu frá norsku rannsóknarmiðstöðinni NORCE.
Þar kemur einnig fram að á árinu 2018 fluttu Norðmenn út sjávarfang fyrir næstum 100 milljarða norskra króna, eða um 1500 milljarða íslenskra, og að á árinu 2017 skilaði norskur sjávarútvegur verðmætum upp á 94 milljarða norskra króna.
Á einum áratug hefur útflutningurinn meira en tvöfaldast og verðmætaaukingin nærri þrefaldast, þrátt fyrir að framleiðslumagnið hafi nokkurn veginn staðið í stað, bæði í fiskveiðum og fiskeldi.
„Við sjáum fyrir okkur að sjávarútvegurinn tvöfaldist til ársins 2030 og fimmfaldist síðan árin þar á eftir,“ hafði norska ríkisútvarpið, NRK, eftir Geir Ove Ystmark, framkvæmdastjóra Sjømat Norge, heildarsamtaka útgerðar og fiskeldisfyrirtækja í Noregi.