Norska þorskeldisfyrirtækið Ode hefur fjárfest í sökkvanlegum kvíum frá AKVA samstæðunni í Noregi, þeim sömu og hafa komið að uppbyggingu landeldsstöðvar LAXEY í Vestmannaeyjum. Tilgangurinn með þeim er að auka velferð fisksins á miklu dýpi og hámarka framleiðsluna.

Fiskifréttir sögðu nýlega frá því þegar Ode gekk frá kaupum á hinni byltingarkenndu UNO fiskvinnsluvél frá Vélfagi á Akureyri. Ode stefnir að eldi á 25 þúsund tonn um af þorski á ári. Fyrirtækið opnaði í byrjun árs sína sjöundu sjókvíaeldisstöð fyrir þorsk í Jonskjær í Nordmøre.

Sökkvanlegu þorskkvíarnar sem AKVA framleiðir nefnast Nautilus. Ode hefur fjárfest í fjórum slíkum kvíum og verður sú fyrsta sett upp í Alida stöðinni í sveitarfélaginu Volda á öðrum og þriðja ársfjórðungi þessa árs. Fjárfestingin er liður í stefnu Ode um nýsköpun og þróun á sviði þorskeldis sem miðar að því að hámarka framleiðslu og vörugæði. Þorskur er náttúruleg djúpsjávartegund sem þrífst best í köldu og stöðugu vatni á talsverðu dýpi. Með sökkvanlegu kvíunum er hægt að bæta umhverfisskilyrðin í eldinu, stuðla að betri velferð fiska og stöðugri vexti og gæðum allt árið í kring.

Betri stýring ljóss, hitastigs og vatnsgæða

Reynsla frá laxeldi og fyrri tilraun um með þorskeldi hafa sýnt mjög jákvæðar niðurstöður af notkun sökkvanlegra kvía. Með þessari tækni næst betri stýring á áhrifum ljóss, hitastigi og vatnsgæðum sem allt eru mikilvægir þættir í hámarks vexti og velferð fiskanna.

ODE er með 7 þorskeldisstöðvar í rekstri.
ODE er með 7 þorskeldisstöðvar í rekstri.

„Við stefnum að því að veita þorskinum bestu mögulegu vaxtarskilyrði með líffræðilegri þekkingu og nýrri tækni. Sökkvanlegu kvíarnar eru eðlilegt næsta skref til að auka velferð fiska, sjálfbærni og afurðagæði. Ef við náum frammistöðumarkmiðum okkar á þessu ári munum við nýta lausnina á fleiri stöðum sem henta fyrir þessa tækni,“ segir Ola Kvalheim, framkvæmdastjóri og einn eigenda Ode.

Sökkvanlegar kvíar eru þekkt tækni en þær sem Ode er að setja upp eru hannaðar í samstarfi við AKVA með það að markmiði að vera á meira dýpri en almennt gerist. Þar með munu þær njóta ávinnings af hagstæðum sjávarstraumum í Alida eldisstöðinni.

Torunn Jørstad, sölustjóri AKVA á Norðurlöndum, segir þetta spennandi tíma fyrir þorskeldi. Fyrirtækið fagni samstarfinu við Ode sem felur í sér aðlögun á Nautilus kvíum fyrir meira dýpi. Ode starfrækir þorskeldi í sjö eldisstöðum við strendur Noregs og vinnur fiskinn í eigin fiskvinnsluhúsi í Vartdal í Mið-Noregi. Fyrirtækið er einnig með söluskrifstofur og afhendir ferskan eldisþorsk til kaupenda víða um heim árið um kring. Ode hefur lagt mikla áherslu á fjárfestingu í tækni og sjálfbærum rekstri og stefnir að því að verða í leiðandi hlutverki í þróun þorskeldis á heimsvísu.