Nú eru í smíðum tólf ný skip fyrir Íslendinga og nemur heildarfjárfestingin um 33 milljörðum króna. Fyrsta skipið, Venus, er væntanlegt fljótlega en langflest skipanna koma á næsta ári. Það ár verða afhent nýsmíðuð skip fyrir 23 milljarða króna. Af þeim 10 togurum sem smíðaðir verða er einungis einn frystitogari en hinir níu eru ísfisktogarar.

Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans . Þar er bent á að þessar miklu fjárfestingar komi til af tvennu. Annars vegar hefur togaraflotinn elst töluvert frá aldamótum og er orðinn gamall og úr sér genginn. Hins vegar hefur svigrúm íslenskra útgerðarfyrirtækja til fjárfestinga sjaldan verið jafn gott á mælikvarða undirliggjandi rekstrar og skuldsetningar. Þannig hefur hlutfall á milli EBITDA og langtímaskulda ekki verið jafn hagstætt, og svigrúm til fjárfestinga á þann mælikvarða ekki verið jafn gott, síðan rétt eftir síðustu aldamót, segir í hagsjánni.