Bæjarráð Vesturbyggðar fagnar áformum um aukin umsvif sjókvíaeldis í sveitarfélaginu enda sé breytingin innan marka burðarþolsmats Arnarfjarðar og áhættumat erfðablöndunar. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs frá 8. apríl sl. Að mati bæjarráðs mun breytingin hafa í för með sér jákvæð áhrif á samfélag og atvinnulíf á svæðinu.
Um er að ræða umsagnarbeiðni í skipulagsgátt um áform Arnarlax um aukningu á umfangi sjókvíaeldis fyrirtækisins í Arnarfirði úr 11.500 tonna hámarkslífmassa í 16.000 tonn ásamt stækkun eldissvæða úr 5,9 ferkílómetrum í 29 ferkílómetra.
Í bókun umhverfis- og loftslagsráð segir að fyrirhugaðar breytingar þurfi að fara fyrir svæðisráð strandsvæðaskipulags, nýtt umhverfismat og aukið reglubundið eftirlit þriðja aðila, þar sem um verulega stækkun á svæðum er að ræða. Einnig þurfi að auka tíðni reglulegs eftirlits fyrirtækisins á kvíum til að minnka líkur á slysasleppingum. Bæjarráð tekur undir bókun umhverfis- og loftlagsráðs en leggur ekki mat á það hvort breytingin kalli á nýtt umhverfismat.
391% stækkun eldissvæða
Í bókun umhverfis- og loftslagsráðs segir: „Með þessum miklu stækkunum er ekki ljóst hvernig gert er ráð fyrir rými fyrir aðra starfsemi í firðinum.
Farið er fram á stækkun eldissvæða úr 5.9 km² í 29km², eða 391% stækkun. Þetta er gert til að auka sveigjanleika kvíabóla og dreifa úrgangi yfir stærra svæði. Því er óskýrt hvort sú þörf sé vegna neikvæðra áhrifa eldis á núverandi svæði eða hvort stækkunin sé til að dreifa uppsöfnun yfir lengri tíma á stærra svæði. Minnst er á möguleikann að færa kvíar á grynnra, straumharðara svæði sem eykur sjónmengun og dreifir mögulega úrgangi út fyrir eftirlitssvæði.
Umhverfis- og loftslagsráð ítrekar mikilvægi varúðarreglunnar og að vísindalegri nálgun sé beitt við ákvarðanir er varða umhverfismál.
Bókun Kristins H. Marinóssonar
Svohljóðandi bókun við fundarbókun umhverfis- og loftlagsráðs var lögð fram af Kristni H. Marinóssyni:
„Það er minn skilningur að tölur um áætlaða aukningu lífmassa um 39% beri ekki saman við áætlaða aukningu úrgangs. Fóðuraukning er sögð vera 33% til 37%. Aukning á losun niturs, fosfórs og kolefnis er sögð vera á bilinu 20-26% á sama tíma sem ég tel vanáætlað.
Farið er fram á stækkun eldissvæða úr 5.9 km² í 29km², eða 391% stækkun. Þetta er gert til að auka sveigjanleika kvíabóla og dreifa úrgangi yfir stærra svæði. Þá finnst mér óskýrt hvort sú þörf sé vegna neikvæðra áhrifa eldis á núverandi svæði og hvort stækkunin sé til að dreifa uppsöfnun yfir lengri tíma á stærra svæði. Minnst er á möguleikann að færa kvíar á grynnra, straumharðara svæði sem eykur sjónmengun og dreifir mögulega úrgangi útfyrir eftirlitssvæði.
Tekið er fram að hætt verði að notast við kopar í nótum, þó fyrirtækið hafi dregið úr upplýsingum um skaðsemi þess. Fyrirtækið tók að nota kopar í nótum áður en löggjöf sem bannaði slíkan búnað var felld úr gildi. Dregur sú hegðun úr trú minni að staðið verði við það loforð.
Ekki er tekið fram hve mörg störf hljótist af þessari aukningu, en þekkt er að rekstrarhagkvæmni aukist með stækkun fiskeldis, sem eykur álag á núverandi starfsfólk. Ekki er hægt að leggja mat á hag samfélagsins út frá þessum gögnum.
Fyrirtækið hefur reglulega lent í áföllum vegna sjúkdóma, laxalúsar og strokulaxa. Ekki er fullreynt að það hafi lært að meðhöndla ástæður þessa óhappa og aukning kvía og stækkun slitflata getur haft í för með sér aukningu á slíkum brestum.
Hafsvæði Arnarfjarðar er þekkt uppvaxtarsvæði mikilvægra fiskstofna og einstaks rækjustofns. Aukning eldis og áhrif þess á botnlíf og súrefnismettun sjávar mun hafa neikvæð áhrif. Ég sé ekki þörf fyrir að gera tilraunir með þolmörk lífkeðjunnar sem þessi fyrirhugaða stækkun er.
Neikvæð umfjöllun íslenskra fjölmiðla vegna áfalla fiskeldis á Vestfjörðum litar almenningsáhrif. Þau áhrif ná langt út fyrir landsteina eins og sést skýrt í heimildamyndinni Laxaþjóð (Salmon nation). Með auknum umsvifum eldisins má gera ráð fyrir að almenningsálit geti versnað enn frekar og haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á Vestfjörðum.
Þó ég fagni hugmyndum um að laga kvíastæðin svo þau snúi þvert á straumlínu, til að auka velferð dýranna tel ég að það sé hægt að gera með einfaldri og smærri breytingu á eldissvæðum.
Fyrirhuguð breyting mun hafa neikvæð áhrif á náttúru, umhverfi og ímynd svæðisins í skiptum fyrir takmarkaða hagkvæmni samfélagsins. Það eina sem hægt er að treysta á ef þetta leyfi er samþykkt er að ársfjórðungskýrsla fyrirtækisins mun líta betur út með tilheyrandi hækkun á hlutabréfum eigenda.“