Hópur íslenskra vísindamanna á vegum íslenska fyrirtækisins Lipid Pharmaceuticals undir forystu Einars Stefánssonar, prófessors í læknisfræði við Háskóla Íslands, fer fyrir rannsókninni sem sagt var frá í Fiskifréttum í nóvember 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði eins og nú.
Það sem hefur gerst síðan er að enn fleiri tilraunir í tilraunaglösum hafa sýnt fram á og staðfest þessi áhrif fitusýranna á veirur. Hópnum sem stendur að baki rannsókninni hefur hins vegar ekki tekist að fjármagna frekari rannsóknir, þ.m.t. áhrif frírra fitusýra á veirur í mannfólki.
Fríar fitusýrur eru náttúrulegt niðurbrotsefni í lýsi. Það ræðst að miklu leyti af framleiðsluaðferðum, geymsluaðferðum og fleiri þáttum hve mikið er af þeim í lýsi. Sýnt hefur verið fram á að fríar fitusýrur eyðileggi hjúpaðar veirur. Það eru veirur sem eru með fituhimnuhjúp í kringum sig, til dæmis herpesveirur, RS-veirur og kórónuveirur.
Einar segir að áhrif fírra fitusýra á veirur séu mjög háð styrk þeirra í lýsinu. Hann segir að vitað sé að 0,1% styrkur hafi engin áhrif í þessa átt meðan 1% og 2% eyðileggja 99,9% veiranna.
Styrkur dreginn til baka
Niðurstöðurnar voru kynntar á þingi Félags íslenskra lyflækna sem haldið var í Hörpu í nóvember 2021.
„Það sem við lýstum þar er áframhaldandi rannsóknir á fitusýrum sem koma úr lýsi og áhrif þeirra á ýmsar veirur. Rannsóknir á áhrifum fitusýranna á veirur eru allar gerðar í tilraunaglösum í samvinnu við háskólann í Utah í Bandaríkjunum. Við fengum marg endurtekið þá niðurstöðu að tiltölulega lítill styrkur fitusýranna eyðileggi kóvidveiruna eða einungis 1-2% styrkur þeirra í lýsi. Við gerðum líka rannsóknir á virkni þeirra á RS-veiruna sem er algeng veira og veldur oft miklum veikindum hjá ungum börnum. Einnig á aðra veiru sem heitir parainflúensa sem og aðrar kórónuveirur sem hafa verið með okkur lengi og valda bara kvefi. Rannsóknirnar hafa staðfest að fitusýrurnar eyðileggja margar af þessum veirum í tilraunaglasi. Og þannig er staðan á rannsókninni núna,” segir Einar.
Einar Stefánsson, prófessor. Aðsend mynd
Lækningatæki fremur en lyf
„Næsta skref er að afla fjár til þess að hefja upphafrannsóknir á áhrifum frírra fitusýra á menn. Þar er um að ræða rannsóknir í nokkrum skrefum sem kostar tugi milljóna króna að fjármagna en til þess að klára ferlið allt er frekar verið að tala um hundruði milljóna króna,” segir Einar.
Endanleg afurð þessara rannsókna myndi flokkast sem lækningatæki fremur en lyf en skýr munur er á þessu tvennu út frá lagatæknilegum sjónarmiðum. Einar leggur áherslu á að fitusýrurnar lækni ekki sjúkdóma heldur líti rannsóknateymið fremur þannig á að þær verði hluti af sóttvörnum.
„Hérna er afskaplega skemmtilegt tækifæri til að þróa lækningatæki sem hefur áhrif ekki einungis á Covid 19 heldur líka margar kvefveirur. Flestir sjá þörfina fyrir fleiri vopn til þess að eiga við pestina sem við stöndum frammi fyrir núna og aðrar veirupestir sem við eigum eftir að kljást við í framtíðinni. Tækifærið er þarna en okkur vantar bara fjármagn til þess að taka næstu skref,” segir Einar.
Samkvæmt áætlun Lipid Pharmaceuticals sem lögð var fram í tengslum við styrkumsóknir gerir hún ráð fyrir þróun á tilbúinni afurð úr lýsi með réttum styrk frjálsra fitusýra í formi lækningatækis á þremur árum.