Gríðarlegar tækniframfarir í fiskiðnaði á undanförnum árum hafa stuðlað að mikilli fækkun starfsfólks í þessari grein. Það segir sína sögu að árið 1995 voru 9.000 fiskvinnslumenn starfandi á Íslandi en 3.000 árið 2007. Fólki í fiski hafði sem sagt fækkað um tvo þriðju eða 67% á þessu árabili.
Á sama tímabili fækkaði sjómönnum úr 7.000 í 4.700 eða um 33%.
Þetta kom fram í opnunarræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á ráðstefnunni Nordic Marine Innovation sem nú er haldin í Hörpu. Í máli sínu fjallaði Sigurður Ingi um mikilvægi nýsköpunar og þau miklu tækifæri sem Íslendingar standa frammi fyrir á þessu sviði.
Því má bæta við til skýringar að kvótasamdráttur á þessum tíma hafði einnig áhrif til fækkunar starfsfólks en tækniframfarir vógu eigi að síður mjög þungt.