Innlendir fiskverkendur hafa ekki haft tækifæri til að bjóða í verulegan hluta þess fisks sem seldur hefur verið í gegnum fiskmarkaði landsins undanfarið. Þetta fullyrti Ragnar H. Kjartansson hjá Fiskmarkaði Suðurnesja á fundi atvinnuvegar alþingis á þriðjudagsmorgun.

Til fundarins voru boðaðir fulltrúar frá flestum helstu hagsmunaaðilum til að ræða samkeppnisstöðu smærri fiskvinnslufyrirtækja gagnvart fiskvinnslu í ríkjum Evrópusambandsins.

Ragnar greindi frá því að fyrstu níu mánuði ársins hefðu þrettán fyrirtæki keypt óunninn fisk eingöngu til útflutnings á fiskmörkuðum, alls 14.709 tonn af 87 þúsund tonna sölu.

Annars værum við dauðir
„Þeir eru þá búnir að kaupa tæplega 20 prósent, en hluti af þessum fiski hefur ekki farið á uppboð þannig að fiskverkendur hér heima hafa ekki átt séns í að bjóða í þetta.“

Hann fullyrti að það væri „vegna þess að það er búið að fixa söluna á milli, og við tökum þátt í því. Annars værum við bara dauðir.“

Fram kom á fundinum að líklega verða vel yfir 50 þúsund tonn af óunnum fiski flutt út á þessu ári. Þetta magn samsvari um 500 störfum í innlendri fiskvinnslu.

Aðalsteinn Finsen hjá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) sagði aldrei hafa orðið eins mikil aukningu á þessum útflutningi eins og nú.

„Þetta hefur haft veruleg áhrif á vinnslur sem ekki hafa verið með útgerð og starfsfólk sem er þar.“

Ketill Helgason, einnig hjá SFÚ, sagðist í sjálfu sér vel geta keppt við útflytjendur á markaði, „en mig vantar fisk. Mér finnst alveg lágmark sem íslenskur fiskframleiðandi að ég fái tækifæri til að bjóða í þennan fisk.“

Sögulega samhengið
Friðrik Gunnarsson, hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, dró upp glæru sem sýndi útflutning á fiski frá 1992, bæði óunnum fiski í gámi og beinum ísfisksiglingum. Að meðaltali sagði hann þennan útflutning hafa numið 44 þúsund tonnum á ári yfir allt tímabilið, en ýmsar sveiflur hafi orðið bæði á heildinni og í einstökum tegundum.

„Í sögulegu samhengi eru þessar sveiflur ekki óeðlilegar,“ sagði Friðrik.

Hann sagði útflutninginn hafa verið enn meiri á árunum fyrir 1992, en á fundinum var bent á að fiskmarkaðir hófu starfsemi hér á landi 1987 og eftir það hafi smám saman dregið úr útflutningi. Hann sé nú að aukast á ný.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í viðtali á RÚV á mánudag að ekki sé að vænta neinna aðgerða á vegum ráðuneytisins á næstunni.

Samkeppnisstöðuna sagði hann ekki vera neitt verri í dag en hún hefur verið, en vissulega hafi hann áhyggjur af því að kjör fiskvinnslufólks rýrni og störf tapist.

Það var Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sem óskaði eftir því að þessi fundur yrði haldinn. Í upphafi fundar sagðist hann hafa velt því fyrir sér „hvar hagræðingin í sjávarútvegi endar. Er hún bara endalaus þangað til það verða bara einhverjir fjórir eða fimm aðilar sem standa í þessu?“