Frystihús sem vinna uppsjávarfisk eru nánast alsjálfvirk. Verið er að innleiða myndavélatækni sem stjórnar flæði fisks í gegnum vigtun, pökkun og við gæðaeftirlit. Nú er svo komið að mannshöndin snertir fiskinn nánast hvergi í framleiðsluferlinu.
Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum þar sem fjallað er um erindi sem Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans og 3X Technology, flutti um þessa nýju tækni á Sjávarútvegsráðstefnunni nú á dögunum. Ingólfur byggði kynningu sína á uppsjávarverksmiðjunni Pelagos í Fuglafirði í Færeyjum sem Skaginn smíðaði á þessu ári. Vinnsla þar hófst í ágúst.
Ingólfur sagði að nýjungin í verksmiðjunni fælist aðallega í flæðistýringu. Um væri að ræða gæðastýrða vigtun sem væri stjórnað af myndavélum.
Verksmiðjan í Færeyjum er það sjálfvirk að úrtínsla og gæðaskoðun er eini staðurinn í vinnsluferlinu þar sem fólk snertir fisk. „Það er algjört markmið okkar að mannshöndin snerti ekki fiskinn í framleiðsluferlinu,“ sagði Ingólfur.
Unnið er að í því að koma á myndavélatækni til að annast úrtínsluna. Þegar hún er komin fullkomlega í gagnið verða engin hefðbundin fiskvinnslustörf eftir í verksmiðjunni en í staðinn koma nokkur betur launuð hátæknistörf.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.