Sjávarútvegsráðherrar Íslands og Færeyja undirrituðu fiskveiðisamning ríkjanna fyrir yfirstandandi ár á fundi í Þórshöfn í Færeyjum í gær. Samningurinn er nær samhljóða fyrri samningi.

Samkvæmt samningnum fá færeysk skip heimild til að veiða 30 þúsund lestir af loðnu við Ísland á loðnuvertíðinni 2010/2011 svo fremi að útgefinn kvóti verði a.m.k. 500 þúsund lestir. Sé gefinn út minni kvóti fá Færeyingar 5% í sinn hlut. Færeyingar hafa heimild til að frysta loðnu og vinna um borð og landa loðnu til manneldis erlendis. Mega þeir þannig frysta 3/4 kvótans en þó þannig að aldrei fari meira en 1/3 kvótans til manneldisvinnslu eftir 15. febrúar, sé útgefinn kvóti 500 þúsund lestir eða minna. Sé útgefinn kvóti meira en 500 þúsund lestir er Færeyingum heimilt að frysta 2/3 kvótans fyrir 15. febrúar.

Samkomulag er um að þjóðirnar fái áfram að veiða kolmunna og norsk-íslenska síld innan lögsögu hvorrar annarrar. Hámarksfjöldi íslenskra skipa í færeysku lögsögunni hverju sinni við kolmunnaveiðar verður áfram 12.

Botnfiskveiðiheimildir Færeyinga við Ísland verða óbreyttar á árinu 2010. Færeysk skip hafa því heimild til að veiða 5.600 lestir af botnfiski á árinu. Heildarafli þorsks verður þó aldrei meiri en 1.200 lestir og lúðuafli aldrei meiri en 40 lestir.

Íslensk skip hafa heimild til að veiða 2.000 lestir af Hjaltlandssíld við Færeyjar og 1.300 lestir af makríl.

Þannig er samningurinn nær óbreyttur milli ára.