Fiskveiðinefnd Evrópuþingsins hefur samþykkt framlengingu á fiskveiðisamningi á milli Evrópusambandsins og Marokkó til febrúar árið 2012. Þessu máli er þó ekki lokið því Evrópuþingið mun greiða atkvæði um samninginn 12.-15. desember næstkomandi, að því er fram kemur á vefnum fis.com.
Framlenging á samningnum var ekki samþykkt einróma í fiskveiðinefndinni því 12 nefndarmenn greiddu atkvæði með, 8 voru á móti og einn sat hjá. Það eru einkum skip sem skráð eru á Spáni sem njóta góðs af þessum samningi.
Samningurinn er umdeildur meðal þingmanna Evrópuþingsins. Gagnrýnendur hans telja að veiðiheimildir séu greiddar alltof háu verði miðað við arðsemi veiða. Því er einnig haldið fram að uppsjávartegundir við Marokkó séu ofveiddar og að veiðarnar skili litlu til þróunarstarfs í Marokkó.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, ítrekar að þess sé gætt að um sjálfbærar veiðar sé að ræða. Hún segir ennfremur að ef samningurinn verði felldur þurfi þingmenn Evrópuþingsins að gera sér grein fyrir því að tvíhliða fiskveiðisamstarfi við Marokkó sé stefnt í tvísýnu. Hætt sé við því að það falli algerlega niður að minnsta kosti um einhvern tíma.
Núverandi samningur felur í sér 119 fiskveiðileyfi fyrir ESB-flotann úti fyrir ströndum Marokkó ásamt kvóta í uppsjávartegundum eins og ansjósu, makríl og síld. Spánverjar fá 100 leyfi sem skiptast á milli Andalúsíu og Kanaríeyja. Á móti greiðir Evrópusambandið 36,1 milljón evra (tæpa 5,8 milljarða ISK) á ári til Marokkó sem er ætlað til þróunar í fiskveiðum í landinu.
Damanaki tilkynnti jafnframt að sá möguleiki væri til skoðunar að fella út úr samningnum veiðiheimildir við Vestur-Sahara.