Fram til ársins 2020 munu fiskveiðar Rússa aukast um 41% og verða þá rétt rúm 6 milljónir tonna, að því er fram kemur í frétt á vefnum fis.com.
Í fréttinni er vitnað í grein sem Viktor Zubkov, aðstoðarforsætisráðherra Rússa, skrifaði í dagblaðið Rossiyskaya Gazeta. Þar kemur fram að Rússar veiddu rúm 4,2 milljónir tonna af fiski árið 2011 og að í ár sé gert ráð fyrir að veiða 4,3 milljónir tonna. Veiðarnar muni síðan aukast jafnt og þétt á næstu árum.
Rússar sjá sér sjálfir fyrir um 80% af sjávarfangi sem neytt er í landinu en stefnt er að því að sú hlutdeild muni hækka í 85% árið 2020.