Landaður fiskafli í átta höfnum á norðausturströnd Japans, sem verst urðu úti í flóðbylgjunni í mars síðastliðnum, hefur hrapað um 85-99% frá því sem áður var. Ástæðan er fyrst og fremst sú að neytendur forðast að kaupa fisk af þessu svæði af ótta við að hann sé geislamengaður.
Enda þótt eyðileggingin sem flóðbylgjan olli á fiskiskipum og fiskvinnsluhúsum í landi hafi leitt til aflasamdráttar á þessu svæði telja fiskimenn og fisksölumenn að kjarnorkuslysið í Fukushima verinu sé meginorsök þess að sjávarútvegurinn hafi ekki náð sér á strik á ný.