Fiskneysla er að verða lúxus efnaðra Dana. Hátt fiskverð leiðir til þess að lægri tekjuhópar í Danmörku sneiða í vaxandi mæli hjá ráðleggingum matvælafræðinga um að borða fisk nokkrum sinnum í viku.

Fiskur er hollur um það er ekki deilt. Fólk í hærri launaflokkum hefur að minnsta kosti meðtekið boðskapinn og gæðir sér á sandhverfu, þorski eða rauðsprettu. Þeir sem hafa minni auraráð verða að gera sér annað og ódýrara fiskmeti að góðu.

Fiskurinn hefur unnið á sem dagleg fæða Dana. Á síðustu 15 árum hefur sú upphæð sem Danir verja til fiskkaupa tvöfaldast. Ef hins vegar er aðeins horft til lægri tekjuhópanna hefur þessi upphæð ekki breyst á sama tíma.

Meðalheimilið varði 1.740 dönskum krónum (40 þús. ISK.) til fiskkaupa árið 2008. Hátekjufjölskyldur keyptu fisk fyrir 2.538 krónur (58 þús. ISK) en lægstu tekjuhóparnir gátu hins vegar aðeins séð af 500 krónum í fiskinn (11.500 ISK).

Skýringa á þessum mun er að leita í hærra fiskverði. Á árabilinu 2005 til 2009 hefur fisksala innanlands aukist um 30% í verðmætum talið en aðeins um 5% á sama tíma ef litið er á magnið.

Danskir sérfræðingar um lýðheilsu hafa áhyggjur af þessari þróun og tala um félagslega slagsíðu varðandi möguleika fólks á því að kaupa sér holla fæðu.