Fyrr í mánuðinum sigldu fimm bátar úr Dalvíkurhöfn í blíðviðri með hóp ferðamanna til að veiða með sjóstöng. Einum bátnum stýrði Tryggvi Sveinsson og hann segir ferðafólkið hafa verið hæstánægt með upplifunina, þrátt fyrir að aflinn hafi ekki orðið mikill.

„Það gekk ágætlega, nema það var bara rosalega lítið fiskerí núna hjá öllum. Fiskurinn er kominn í hrygningu og þá bara tekur hann ekki. Hann er bara að hugsa um eitthvað allt annað en að éta.“

Í heildina veiddust ekki nema eitthvað um 100 kíló, segir Tryggvi.

„Það fengu allir bikara samt, fyrir stærsta fiskinn og svona.“

Hann veit ekki hvort hann fer í fleiri sjóstangveiðiferðir í sumar, en stefnir ótrauður á strandveiðar og segist bjartsýnn á þær. Samt ekki á sama bátnum, nafna sínum Tryggva Sveins EA 48, heldur á minni bát sem heitir Rumur EA 401.

„Hinn er svona í það stærsta finnst mér á strandveiðarnar, þannig að ég keypti mér annan minni.“

Tryggva Sveins hefur hann notað í vetur sem kennslubát til að sigla með nemendur auðlindadeildarinnar við Háskólann á Akureyri.

„Það eru verðandi sjávarútvegsfræðingar. Þetta eru svona fimmtán dagar sem farið er á hverjum vetri með þá.“

Hafrannsóknabátur

Að auki er Tryggvi Sveins EA búinn tækjum til hafrannsókna, enda var hann stundum notaður í rannsóknarferðir á vegum Hafrannsóknastofnunar og hét þá Einar í Nesi EA 49.

„Jú, ég vann lengi með Hafró, og var þá með þennan bát. Svo keypti ég bátinn og lét breyta honum, lengja og tækja hann allan upp. Þannig að þetta er svaka flottur rannsóknarbátur núna. Hann er með fjölgeislamæli og allt sem þarf og er núna tilbúinn í hvaða rannsóknir sem er. En þeir hafa ekkert notað hann síðan ég breytti honum,“ segir Tryggvi.

„Svo notaði ég hann líka til þess að merkja hvali fyrir Hafró með gervitunglasendum. Þá var ég mikið einn á bátnum, var bara uppi á stýrishúsi og skaut þaðan gervitunglasendum.“