Það er ekki bara við Ísland þar sem hlýnandi sjór hefur valdið því að fisktegundir hafa fært sig norðar til þess að komast í kjörhita. Sjómenn við austurströnd Bandaríkjanna þurfa líka að sækja hefðbundnar fisktegundir mun norðar en áður.

Sjómenn hafa fylgst með þessari þróun í áratugi en þetta hefur nú verið staðfest í rannsóknum vísindamanna við Rutgers háskólann í New Jersey. Í nýlegri skýrslu kemur fram að meira en 60 fisktegundir hafi flutt sig norðar á síðustu 40 árum. Að meðaltali hefur fiskurinn fært sig norður um 0,7 úr breiddargráðu. Hann hefur jafnframt dýpkað á sér um 15 metra.

Við New Jersey hefur lýsa og humar horfið af miðunum en þessar tegundir veiðast nú í miklum mæli norður við Nýja England, nyrst á austurströnd Bandaríkjanna. Í þeirra stað hafa aftur á móti suðlægari tegundir eins og gaddborri (black sea bass) og flundra fært sig norður til New Jersey. Þetta eru hins vegar hefðbundnar tegundir sem veiddust áður við Virginíu og Norður-Karólínu. Sjómenn hafa reynt að laga sig að þessum breytingum með því að sækja lengra og lengra með tilheyrandi kostnaði. Í sumum tilvikum þarf að elta fiskinn meira en hundrað mílum lengra en áður.