Sjávarafurðir er önnur stærsta útflutningsgreinin á Skotlandi og koma þær næst á eftir annarri vörutegund sem haldið hefur nafni Skotlands hátt á lofti um langt árabil, nefnilega viskí.
Þetta má lesa í netmiðli norska sjávarútvegsblaðsins Kystmagasynet en blaðamaður þess gerði sér ferð til Peterhead á Skotlandi og fylgdist með uppboði á fiski á markaðnum þar og birti í leiðinni stutt yfirlit yfir skoskar fiskveiðar.
Skoski fiskiskipaflotinn er einn nútímalegasti flotinn í Evrópu. Árið 2015 voru 2.017 stór og smá skip í flotanum. Sjómenn voru 4.800. Í fyrra lönduðu skosk skip 439.900 tonnum af fiski að verðmæti 437 milljónir punda (tæpir 62 milljarðar ISK).
Uppsjávarflotinn er öflugur þótt í honum séu aðeins 20 skip. Makríllinn sem þau veiða er verðmætasta fisktegund Skota. Árið 2015 veiddust um 200 þúsund tonn af makríl sem skiluðu um 30% af aflaverðmæti skoskra skipa. Þá má geta þess að Skotland er þriðja stærsta framleiðsluland á eldislaxi í heiminum og hefur skoski laxinn hlotið viðurkenningu sem gæðavara.
Um 200 tonn af fiski voru boðin upp á fiskmarkaðinum í Peterhead þann dag sem blaðamaður Kystmagasynet staldraði þar við. Smáþorskurinn seldist á 1,40-1,9 pund kílóið (197-268 ISK). Þorskur stærri en 2,5 kíló fór á 2,7 pund kílóið (rúmar 380 ISK). Skötuselurinn var sleginn á hæsta verði allra fisktegunda og fór hann á 3,25-4,10 pund fyrir kílóið (458-578 ISK).