Fiskur í dýragarðinum í Bristol gekkst á dögunum undir augnaðgerð. Fjarlægja þurfti annað auga hans og tók aðgerðin um klukkustund. Frá þessu er greint á fréttavef BBC.
Fiskurinn sem hér um ræðir er af sérstakri gerð fiska, svonefndra kúlufiska (puffer fish). Nafnið fá þeir af því að þeir geta blásið sig út og líkjast þá ígulkeri.
Starfsmenn dýragarðsins tóku eftir því að annað auga fisksins var stokkbólgið og reyndist hann vera með ský á auga. Kúlufiskurinn er mjög vinsæll í sædýradeildinni í dýragarðinum í Bristol. Hann hefur verið þar í átta ár og hefur fengið sitt eigið nafn, Mini. Þess vegna var hópur dýralækna kallaður til og niðurstaðan varð sú að fjarlægja þyrfti augað. Þar sem um flókna aðgerð var að ræða var fiskurinn tekinn úr búri sínu og færður á skurðarborðið. Honum var haldið sofandi með því að láta vatn með deyfilyfjum drjúpa um tálkn hans. Einnig var roðinu haldið röku.
Þegar fiskurinn rankaði við sér eftir deyfinguna að aðgerð lokinni fékk hann að fara á ný í fiskabúrið og var verðlaunaður með bláskel og krabba. Talsmaður dýrgarðsins lauk miklu lofsorði á teymi dýrlæknanna í viðtali við BBC og sagði að augmissirinn virtist ekki plaga fiskinn.
Þess má geta að kúlufiskar eru ekki alveg hættulaus dýr. Þeir eru taldir vera önnur eitraðasta hryggdýrategund heims. Sumar tegundir kúlufiska eru þó ætar og þykja meira að segja sælkeramatur. Aðgátar er þó þörf. Það fylgir sögunni að komist þú í tæri við kúlufisk séu meiri líkur á því að hann verði þér að bana áður en þú náir að drepa hann!