Heildarafli skipa HB Granda á síðasta ári nam alls tæplega 200 þúsund tonnum og aflaverðmæti þeirra var rúmir 17,8 milljarðar króna. Samdráttur varð í afla og aflaverðmæti frystitogara félagsins en Þerney RE og Örfirisey RE voru nokkuð frá veiðum vegna breytinga. Góð aflaaukning uppsjávarveiðiskipa veldur því að aflaverðmæti skipaflotans er svipað og á árinu 2011.

Afli fimm frystitogara félagsins nam alls 31.700 tonnum og var aflaverðmæti þeirra tæpir 9,5 milljarðar króna. Þetta er töluverður samdráttur í afla og verðmætum því á árinu 2011 var afli frystiskipanna um 36.400 tonn að verðmæti 10,7 milljarðar króna.

Lítilsháttar aukning varð á afla og aflaverðmæti ísfisktogaranna þriggja. Aflinn í fyrra var um 18.500 tonn að verðmæti tæplega 3,3 milljarðar króna.

Uppsjávarveiðiskip HB Granda færðu alls að landi rúmlega 148.600 tonna afla á nýliðnu ári. Aflaverðmæti skipanna fjögurra nam tæplega 5,1 milljarði króna. Þetta er veruleg aukning milli ára því á árinu 2011 var heildaraflinn rúmlega 106.000 tonn að verðmæti 4,1 milljarður króna.

Þegar á heildina er litið jókst heildarafli allra skipa HB Granda um tæplega 38 þúsund tonn á milli ára, sem er 23% aukning, en aflaverðmætið lækkaði um 136 milljónir eða um 1%.

Nánari upplýsingar um afla og aflaverðmæti með samanburði við árið 2011 má sjá á vef HB Granda .