Afli skipa HB Granda var 15% meiri á nýliðnu ári en á árinu 2014 og munar þar mest um verulega aukningu á uppsjávarafla. Aflaverðmætið jókst á sama tíma um 9,5% eða um rúma 1,4 milljarða króna.
Þetta kemur fram í samantekt HB Granda fyrir árið með samanburði við árið 2014.
Afli skipanna var alls tæplega 176 þúsund tonn á árinu og aflaverðmætið tæpir 16,7 milljarðar króna. Sem fyrr segir er skýringanna á aflaaukningu fyrst og fremst að leita í meiri afla uppsjávarskipanna. Stafar hann af auknum loðnukvóta milli ára. Afli uppsjávarskipanna jókst um tæp 25% á milli ára.
Afli frystitogara félagsins dróst saman um rúm 12% á árinu en lítið vantar upp á að aflaverðmætið sé hið sama milli ára.
Staðan hjá ísfisktogurum HB Granda hvað afla varðar er svipuð og árið á undan. Lítilsháttar aflaaukning varð milli ára, aflaverðmætið jókst um rúm 12%, fór úr tæpum 4,6 milljörðum í rúman 5,1 milljarð króna.
Sjá nánar á vef HB Granda.