Aðilar sem koma að sölu á íslenskum sjávarafurðum, frosnum og söltuðum, á erlendum mörkuðum lýsa stöðunni þannig að hún sé nú þyngri en verið hafi í langan tíma. Mjög hafi hægt á sölu á öllum helstu tegundum sem Íslendingar veiða og vinna, jafnt í Evrópu, Bandaríkjunum, Asíu og Afríku, sem rekja megi meðal annars til efnahagsástands í heiminum og þess að neytendur hafi einfaldlega minna umleikis en áður.

Þó vilja sumir draga úr alvarleika stöðunnar og benda á að þróunin stefni ef til vill í verðumhverfi sem ríkti áður en Covid-19 faraldurinn skall á heimsbyggðinni. Afurðaverð hafi hækkað verulega þegar afléttingar vegna Covid-19 fóru að hafa áhrif út um allan heim. Þá hafi vantað fisk í allar aðfangakeðjur og verð rokið upp. Það sem sé að eiga sér stað núna á erlendum mörkuðum sé leiðrétting - verðið leiti til baka til þess sem það var fyrir Covid.

Ufsi kominn á fyrir Covid-verð

Gott dæmi um þetta er ufsi sem tvöfaldaðist í verði eftir afléttingarnar en nú er verðið svipað og það var fyrir faraldur. Mörgum þyki þetta miklar verðlækkanir en það vilji gleymast að fiskframleiðendur hafa búið við gnægtarborð allt frá lokum faraldursins hvað fiskverð snertir. Sala á íslenskum sjávarafurðum hafi gengið sérstaklega vel í mörg undanfarin ár, verð verið hátt og birgðahald framleiðenda verið lítið. Nú sé markaðurinn sé einfaldlega að leita í það jafnvægi sem ríkti fyrir heimsfaraldurinn. Þess vegna sé þyngra undir fæti í sölu á íslenskum sjávarafurðum og það taki lengri tíma en áður að afsetja vöruna. Ekkert frost sé þó á markaðnum. Þar séu kaupendur en dregið hafi úr kaupgetu þeirra í ljósi efnahagsástandsins í heiminum, hækkandi orkuverðs, verðbólgu og gjaldeyrismála.

Dregur úr fiskneyslu

Dregið hefur úr fiskneyslu í Evrópu, sums staðar allverulega, eins og á Spáni. Komið hefur fram að á Spáni hefur fiskneysla fallið úr 40 kg á ári á mann í 19 kg á síðastliðnum 25 árum. Sumir rekja minnkandi fiskneyslu almennt til breyttra neysluhátta meðal þjóða en aðrir telja að stór hluti skýringarinnar til skemmri tíma sé verðhækkanir á sjávarafurðum sem urðu í kjölfar heimsfaraldursins og neytendur leiti í aðra og ódýrari matvöru. Nú þegar hægt hefur á sölu fari verð lækkandi. Óvíst sé hvort kvarnast hafi úr hópi fiskneytenda til lengdar og hugsanlegt er að salan nái aftur fyrra flugi í ljósi verðlækkana.

Verulegar verðlækkanir hafa orðið á ýsu inn á Bretlandsmarkað.
Verulegar verðlækkanir hafa orðið á ýsu inn á Bretlandsmarkað.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Annað sem er sölu íslenskra sjávarafurða mótdrægt um þessar mundir eru gjaldeyrisvandamál í mörgum viðskiptalöndum. Þar má nefna lönd eins og Tyrkland og Egyptaland sem eru í vandræðum með að kaupa dollara eða evrur til að greiða fyrir vörur. Tyrkland er stór markaður fyrir ufsa frá Íslandi og þar er núna 61% verðbólga og stýrivextir eru 40%. Það þarf því ekki mikið hugmyndaflug til að sjá hvernig viðskiptaumhverfið er þar. Viðvarandi gjaldeyrisvandræði eru í Nígeríu, stærsta kaupenda skreiðar frá Íslandi.

Vinnumarkaðsdeilur

Enn eitt atriðið sem eykur vandræði í sölu íslenskra sjávarafurða er ástandið í Úkraínu. Mikið magn uppsjávarfisks fyrir Austur-Evrópu hefur verið geymdur í frystigeymslum í Klaipeda í Littháen og er fluttur þaðan í gegnum Pólland yfir til Úkraínu. Yfirleitt hafa flutningabílar frá Úkraínu sótt þennan fisk en nú hafa pólskir bílstjórar gert kröfu til þessara flutninga. Vandamál hafa risið út af þessu og á meðan fyllast allar frystigeymslur af fisk.

Á sama tíma er bent á að íslenskir framleiðendur hafi tekið á sig töluverðar verðlækkanir á ýsu inn á Bretlandsmarkað. Verðlækkun skili sér þó ekki til neytenda í lægra smásöluverði heldur taki milliliðir, eins og dreifingaraðilar og stórverslanakeðjur, hana að mestu til sín. Þar á það sama við í öðrum tegundum sem hækkuðu mikið í verði eftir Covid-afléttingarnar og þar sem verð er að leita jafnvægis við það sem var fyrir Covid. Ekki er víst að sjáist enn fyrir endann á þessum verðlækkunum og telja sumir jafnvel stefna í að verðin fari niður fyrir það sem þau voru fyrir Covid.

Aðilar sem koma að sölu á íslenskum sjávarafurðum, frosnum og söltuðum, á erlendum mörkuðum lýsa stöðunni þannig að hún sé nú þyngri en verið hafi í langan tíma. Mjög hafi hægt á sölu á öllum helstu tegundum sem Íslendingar veiða og vinna, jafnt í Evrópu, Bandaríkjunum, Asíu og Afríku, sem rekja megi meðal annars til efnahagsástands í heiminum og þess að neytendur hafi einfaldlega minna umleikis en áður.

Þó vilja sumir draga úr alvarleika stöðunnar og benda á að þróunin stefni ef til vill í verðumhverfi sem ríkti áður en Covid-19 faraldurinn skall á heimsbyggðinni. Afurðaverð hafi hækkað verulega þegar afléttingar vegna Covid-19 fóru að hafa áhrif út um allan heim. Þá hafi vantað fisk í allar aðfangakeðjur og verð rokið upp. Það sem sé að eiga sér stað núna á erlendum mörkuðum sé leiðrétting - verðið leiti til baka til þess sem það var fyrir Covid.

Ufsi kominn á fyrir Covid-verð

Gott dæmi um þetta er ufsi sem tvöfaldaðist í verði eftir afléttingarnar en nú er verðið svipað og það var fyrir faraldur. Mörgum þyki þetta miklar verðlækkanir en það vilji gleymast að fiskframleiðendur hafa búið við gnægtarborð allt frá lokum faraldursins hvað fiskverð snertir. Sala á íslenskum sjávarafurðum hafi gengið sérstaklega vel í mörg undanfarin ár, verð verið hátt og birgðahald framleiðenda verið lítið. Nú sé markaðurinn sé einfaldlega að leita í það jafnvægi sem ríkti fyrir heimsfaraldurinn. Þess vegna sé þyngra undir fæti í sölu á íslenskum sjávarafurðum og það taki lengri tíma en áður að afsetja vöruna. Ekkert frost sé þó á markaðnum. Þar séu kaupendur en dregið hafi úr kaupgetu þeirra í ljósi efnahagsástandsins í heiminum, hækkandi orkuverðs, verðbólgu og gjaldeyrismála.

Dregur úr fiskneyslu

Dregið hefur úr fiskneyslu í Evrópu, sums staðar allverulega, eins og á Spáni. Komið hefur fram að á Spáni hefur fiskneysla fallið úr 40 kg á ári á mann í 19 kg á síðastliðnum 25 árum. Sumir rekja minnkandi fiskneyslu almennt til breyttra neysluhátta meðal þjóða en aðrir telja að stór hluti skýringarinnar til skemmri tíma sé verðhækkanir á sjávarafurðum sem urðu í kjölfar heimsfaraldursins og neytendur leiti í aðra og ódýrari matvöru. Nú þegar hægt hefur á sölu fari verð lækkandi. Óvíst sé hvort kvarnast hafi úr hópi fiskneytenda til lengdar og hugsanlegt er að salan nái aftur fyrra flugi í ljósi verðlækkana.

Verulegar verðlækkanir hafa orðið á ýsu inn á Bretlandsmarkað.
Verulegar verðlækkanir hafa orðið á ýsu inn á Bretlandsmarkað.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Annað sem er sölu íslenskra sjávarafurða mótdrægt um þessar mundir eru gjaldeyrisvandamál í mörgum viðskiptalöndum. Þar má nefna lönd eins og Tyrkland og Egyptaland sem eru í vandræðum með að kaupa dollara eða evrur til að greiða fyrir vörur. Tyrkland er stór markaður fyrir ufsa frá Íslandi og þar er núna 61% verðbólga og stýrivextir eru 40%. Það þarf því ekki mikið hugmyndaflug til að sjá hvernig viðskiptaumhverfið er þar. Viðvarandi gjaldeyrisvandræði eru í Nígeríu, stærsta kaupenda skreiðar frá Íslandi.

Vinnumarkaðsdeilur

Enn eitt atriðið sem eykur vandræði í sölu íslenskra sjávarafurða er ástandið í Úkraínu. Mikið magn uppsjávarfisks fyrir Austur-Evrópu hefur verið geymdur í frystigeymslum í Klaipeda í Littháen og er fluttur þaðan í gegnum Pólland yfir til Úkraínu. Yfirleitt hafa flutningabílar frá Úkraínu sótt þennan fisk en nú hafa pólskir bílstjórar gert kröfu til þessara flutninga. Vandamál hafa risið út af þessu og á meðan fyllast allar frystigeymslur af fisk.

Á sama tíma er bent á að íslenskir framleiðendur hafi tekið á sig töluverðar verðlækkanir á ýsu inn á Bretlandsmarkað. Verðlækkun skili sér þó ekki til neytenda í lægra smásöluverði heldur taki milliliðir, eins og dreifingaraðilar og stórverslanakeðjur, hana að mestu til sín. Þar á það sama við í öðrum tegundum sem hækkuðu mikið í verði eftir Covid-afléttingarnar og þar sem verð er að leita jafnvægis við það sem var fyrir Covid. Ekki er víst að sjáist enn fyrir endann á þessum verðlækkunum og telja sumir jafnvel stefna í að verðin fari niður fyrir það sem þau voru fyrir Covid.