Landslið Dana stóð sig frábærlega vel á EM í handbolta ef frá er talinn úrslitaleikurinn á móti Frökkum. Danir höfnuðu í öðru sæti á mótinu og hrepptu því silfurverðlaunin. Danskir fjölmiðlar vekja nú athygli á því að góðan árangur megi meðal annars rekja til fiskneyslu.
Næringarráðgjafi danska liðsins segir að mataræði leikmanna miði að því að auka styrk og úthald. Þar skipi fiskur stóran sess. Fiskur sé mikilvægur prótíngjafi auk þess sem hann sé uppspretta fyrir joð, selen, E vítamín og D vítamín. Leimönnum sé því eindregið ráðlagt að borða ekki minna en 350 grömm af fiski á viku.