Þrátt fyrir allt tal um það hvað fiskur sé hollur borðuðu Norðmenn 4% minna af fiski og skeldýrum í fyrra en árið á undan, að því er fram kemur í frétt í norska ríkissjónvarpinu. Í heild dróst neysla Norðmanna á sjávarafurðum saman um rúm þrjú þúsund tonn milli ára.
Norska sjávarútvegsráðið (Norges sjømatråd) hefur löngum staðið fyrir markaðsátaki innanlands til að hvetja Norðmenn til að borða meiri fisk. Þar á bæ er samdrátturinn útskýrður með því að Norðmenn kaupi jafnoft fisk í matinn og áður en minna magn í hvert sinn. Nú sé farið að bjóða fisk í æ ríkari mæli í ákveðnum skömmtum sem passi hverjum og einum nákvæmlega. Áður hefði verið keypt meira eftir vigt og þá oft ríflega.
Fiskneysla Norðmanna hefur einnig breyst. Nú er minna borðað af fiskfarsi, fiskbúðingi o.s.frv. Meira er hins vegar keypt af hreinum fiskflökum. Lax er einnig í uppsveiflu en neysla á honum hefur aukist um 37% á síðustu sex árum. Á sama tíma hefur neysla á rækju minnkað um 20,5%, síldin hefur dregist saman um 18% og neysla á ufsa hefur minnkað mest á þessu sex ára tímabili, eða um 40%.