Gríðarleg verðhækkun varð á íslensku fiskmörkuðunum fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Meðalverð allra tegunda hækkaði úr 176 krónum kílóið í 282 krónur eða um 60%, að því er fram kemur í Fiskifréttum.
Þorskverð hækkaði að meðaltali úr 212 krónum kílóið í 329 krónur eða um 55% og ýsa úr 161 krónum í 284 krónur eða um 76%.
Alls var selt fyrir 10 milljarða króna á fiskmörkuðunum frá áramótum til aprílloka samanborið við 7,3 milljarða króna í sömu mánuðum í fyrra. Söluaukningin nemur 37%. Þetta gerist samtímis því að selt magn minnkar úr 41.600 tonnum í fyrra í 35.500 tonn í ár eða um 15%.
Nánar um verðþróun á fiskmörkuðum í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.