Meðalverð á íslensku fiskmörkuðunum í júlímánuði var 218,65 kr/kg. Meðalverð hefur aðeins einu sinni áður farið yfir 200 kr/kg en það gerðist í nóvember á síðasta ári þegar meðalverð mánaðarins var 213,14 kr/kg.
Söluverðmætið á mörkuðunum í júlí var 1.398 milljónir króna sem er það langmesta sem sést hefur í júlímánuði. Þetta er 44% meira söluverðmæti en í júlí 2008. Aðeins einu sinni hefur söluverðmætið farið yfir milljarð áður en það var árið 2006.
Seld voru 6.396 tonn í júlí sem er 22% meira en í júlí 2008 en samt minna en meðaltalið. Mest var selt í júlí 1997 eða 9.175 tonn.
Þetta kemur fram í frétt frá Reiknistofu fiskmarkaða.