Fiskmarkaðurinn í Grimsby fór af stað með látum nú í vikunni eftir langt hlé um jólin og áramótin, að því er segir í frétt á vefnum fishupdate.com. Seldir voru 1.800 kassar á markaðnum á þriðjudaginn og eftirspurnin var mikil. Stór þorskur seldist fyrir 4,3 pund á kílóið (um 825 krónur íslenskar), stór ýsa fór á 4 pund kílóið (768 krónur íslenskar) og stór skarkoli seldist á 4,50 pund kílóið (864 krónur íslenskar) en svo hátt verð fyrir kolann hefur ekki fengist lengi. Lítið framboð var af fiski í vikunni og verð hélst áfram hátt. Í fréttinni segir að lítið framboð stafi af því að íslensk skip, sem sjái markaðnum helst fyrir fiski, hafi fyrst farið á sjó eftir áramótin og slæmt veður hafi auk þess tafið fyrir veiðum þeirra.