Ragnar Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Íslands, segir það vissulega munu lengja strandveiðitímabilið mikið ef það verður 48 dagar eins og gert sé ráð fyrir en að engin leið sé til þess á núverandi tímapunkti að gera sér grein fyrir áhrifunum af breyttu fyrirkomulagi á starfsemi fiskmarkaðarins.
„Ég veit ekki neitt um það hvernig þetta verður og þá er erfitt að svara hver áhrifin verða,“ svarar Ragnar. „Verður meiri afli? Hvar verða bátarnir? Verður þetta kvótaskipt? Ætla þeir að minnka kvótann á hvern bát? Það er svo mikið af spurningum sem er ósvarað. Ætli við vitum ekki bara 1. maí hvernig þetta verður?“
Þarf að skipuleggja sumarið
Ragnar bendir á að Fiskmarkaður Íslands sé með margar starfsstöðvar og að þær þurfi að manna og að skipuleggja þurfi sumarfrí fyrir starfsfólkið.
„Þannig að það væri voðalega gott að vita þetta sem fyrst svo maður geti þjónustað þetta þokkalega. Það hlýtur að vera markmiðið hjá öllum að reyna að standa sig vel og gera sem best úr þessu. Þetta eru nefnilega ekki bara veiðarnar sem þetta snýst um, það þarf náttúrlega að vera þjónusta í kringum þetta líka,“ segir Ragnar.
Sem dæmi um umsvif Fiskmarkaðar Íslands sem þurfi að skipuleggja fram í tímann nefnir Ragnar að fyrirtækið sé með flokkun og slægingarstöð. „Þannig að ég tek allan þorskinn og stærðarflokka hann, eins og á Snæfellsnesi þar sem ég er með mikinn mannskap,“ bendir hann á.
Almennt segir Ragnar horfurnar góðar á fiskmörkuðum. „Veturinn er búinn að vera mjög góður og verð mjög hátt. Og það er ekkert sem bendir til þess að breyting verði á því.“