Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Fiskkaup í Reykjavík hefur fest kaup á útgerðarfélaginu Aðalbjörgu RE ásamt samnefndu skipi og aflaheimildum og tók við rekstrinum um áramótin. Fiskkaup hyggst gera Aðalbjörgu RE 5 út í óbreyttri mynd en hún hefur verið gerð út frá Reykjavík til dragnóta- og netaveiða áratugum saman. Aðalbjörg RE er elsta starfandi útgerðarfélag í höfuðborginni, var stofnað 1932 og er því 93 ára á þessu ári. Aflaheimildir þess í þorskígildistonnum eru 267 tonn þar af 93 tonn í þorski

Kauptilboð Fiskkaupa hefur verið samþykkt. Fiskkaup gera út línuskipið Kristrúnu RE 177 og krókaaflamarksbátinn Jón Ásbjörnsson RE 777. Afli báta félagsins er um 3.500 tonn á ársgrundvelli. Auk þess rekur Fiskkaup hátæknivædda fiskvinnslu í sérhönnuðu húsnæði á Granda með framleiðslu á ferskum, landfrystum og söltuðum þorski, ferskri og landfrystri ýsu og saltaðri löngu og keilu. Þá fer fram sjófrysting á grálúðu í Kristrúnu RE. Grálúðuveiðar hafa verið hornsteinninn í rekstri fyrirtækisins undanfarin ár. Félagið var stofnað 1983 af Jóni Ásbjörnssyni.

Stofnað í heimskreppunni miklu

Útgerðarfélagið Aðalbjörg RE var stofnað í heimskreppunni miklu árið 1932 af feðgunum Sigurði Þorsteinssyni og Einari Sigurðssyni. Synir Einars og Sigurðar, Stefán og Guðbjartur, tóku við útgerðinni 1974 en síðustu árin hefur félagið verið í eigu Stefáns og Önnu Sigurbrandsdóttur, ekkju Guðbjarts. Skipstjóri Aðalbjargar RE 5 frá árinu 2020 er Sigtryggur Albertsson, tengdasonur Stefáns. Ásbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri og aðaleigandi Fiskkaupa, segir að stefnt sé að því að gera Aðalbjörg RE 5 út með svipuðum hætti og verið hefur. Skipið er smíðað árið 1987 í Vélsmiðju Seyðisfjarðar.