Persónuvernd úrskurðaði í gær að Fiskistofu hefði verið óheimilt að beita falinni myndavél í Njarðvíkurhöfn í febrúar síðastliðnum. Ástæðan var skortur á viðvörunum.
"Þetta er mikilvæg löggjöf sem Persónuvernd er að framfylgja þarna en eftirlit með myndavélum er gríðarlega mikilvægt fyrir Fiskistofu. Við þurfum mjög á því að halda að geta beitt myndavélum í okkar eftirliti," sagði Eyþór Björnsson fiskistofustjóri um niðurstöðuna í samtali við Fréttablaðið í dag.
Að sögn Eyþórs eru allir eftirlitsmenn Fiskistofu búnir myndavélum til að geta tekið ljósmyndir og eins myndbandsbrot.
Úrskurðurinn virðist ávísun á að illmögulegt sé að koma upp um brot af þessu tagi. "Þetta er mjög erfiður málaflokkur. Erfitt að upplýsa brot ef við megum ekki nota myndavélar og gerir okkur erfitt fyrir. Það er svo mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á því hvernig aðilar haga sér við að fremja brotin svo við getum gripið inn í og stöðvað þau brot," segir Eyþór.
Fiskistofu er gert að eyða öllum upptökum.
Úrskurð Persónuverndar má sjá á vef stofnunarinnar, HÉR