Hrygningarstofnar mikilvægustu botnfiskstofnanna í Barentshafi hafa þrefaldast að stærð frá árinu 1985 til dagsins í dag. Það sama á við um uppsjávartegundirnar.

Þorskstofninn annars vegar og norsk-íslenski síldarstofninn hins vegar eiga stærstan þátt í þessari þróun. Þorskstofninn heldur áfram að stækka en norsk-íslenski síldarstofninn hefur látið undan síga á síðustu árum.

Þetta kemur fram í nýrri opinberri skýrslu um norskar fiskveiðar. Þar segir að aflaverðmæti, sérstaklega í uppsjávarveiðum, hafi aukist mikið síðustu þrjá áratugina eða úr 2 milljörðum NOK í rúmlega 7 milljarða NOK (140 milljarða ISK) árið 2011. Verðmætið hrökk reyndar niður fyrir sex milljarða NOK (120 milljarða ISK) á  árinu 2012 sem stafaði af minnkandi afla og lækkandi verði, sérstaklega á makríl.

Arðsemi hefur aukist í norska fiskveiðiflotanum á liðnum áratugum og á árinu 2011 var meðalframlegðin 22%.  Framlegðin er reyndar mjög mismunandi eftir veiðigreinum.

Í skýrslunni kemur einnig fram að styrkir til fiskveiða hafa dregist verulega saman á þessum tíma. Á árinu 1985 námu þeir 1,2 milljörðum NOK eða 24 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi. Á síðasta ári voru þeir aðeins 51 milljón NOK eða jafnvirði um eins milljarðs íslenskra króna.

Á árinu 2012 voru rúmlega 6.200 skip og bátar skráðir í norska fiskveiðiflotann og fiskimenn voru 12.000 talsins.