Síðan í júlí hefur Fiskistofa birt í heild sinni allar ákvarðanir um sviptingu veiðileyfa og afturköllun vigtunarleyfa.

„Birting ákvarðanna stuðlar að gagnsæi í störfum Fiskistofu sem og fyrirsjáanleika fyrir þá sem starfa í greininni og veitir bæði þeim og Fiskistofu tilhlýðilegt aðhald,“ segir á vef Fiskistofu.

Birtingin er gerð í samræmi við nýtt ákvæði í 9. gr. laga um Fiskistofu nr. 36/1992, en þessu ákvæði er „ætlað að auka gagnsæi í störfum Fiskistofu sem og fyrirsjáanleika fyrir þá sem starfa í greininni og veita bæði þeim og Fiskistofu tilhlýðilegt aðhald.“

Þessar ákvarðanir Fiskistofu er að finna á nýrri heimasíðu Fiskistofu sem verið er að standsetja og kemur til með að taka við af þeirri eldri: https://island.is/s/fiskistofa/akvardanir.

Þar er nú þegar að finna ákvarðanir um sviptingu veiðileyfis fjögurra báta, í eina til átta vikur hver, í öllum tilvikum vegna brottkasts sem uppgötvaðist við eftirlit með drónum.