Fiskiskipum á landinu hefur fækkað umtalsvert á síðustu tveimur áratugum. Þau voru 1.872 árið 2004 en í árslok 2023 voru þau 1.535 talsins. Þetta er fækkun um nærri 18% eins og lesa má út úr tölum Hagstofu Íslands.

Fiskiskipum hefur reyndar fjölgað á tveimur svæðum á þessu árabili, þ.e. á Vestfjörðum Norðurlandi vestra. Eins og fyrir 20 árum eru fiskiskip flest skráð á Vestfjörðum, alls 391 skip en þau voru 348 árið 2004. Á Vesturlandi voru þau 335 árið 2004 en 269 í árslok 2023. Á Norðurlandi eystra voru þau 295 árið 2004 en 212 í árslok 2023.

Hvergi hefur fækkun fiskiskipa verið jafn áberandi og á höfuðborgarsvæðinu. Þar voru skráð 207 skip árið 2004 en voru 112 um síðustu áramót.