Norska hafrannsóknastofnunin hefur gert ítarlega könnun á því hve mikinn fisk ferðamenn draga úr sjó á ári hverju þar í landi. Niðurstaðan er sú að þessi afli sé um 3.300 tonn.

Langmest af þessum fiski, eða tæp 3.000 tonn, er veitt í Norður-Noregi en afgangurinn sunnar í landinu. Í Norður-Noregi er aflinn aðallega þorskur en í Suður-Noregi ufsi.

Ferðamenn geta veitt eins mikið og þeir kjósa en þeir mega ekki fara með meira en 15 kíló út úr landinu.

Með fiskiferðamönnum er ekki bara átt við útlendinga heldur einnig Norðmenn sem fara út að veiða sér til ánægju og flokkast ekki sem atvinnufiskimenn. Samkvæmt tölum Hagstofunnar í Noregi fer um það bil helmingur Norðmanna á fullorðinsaldri út að fiska einu sinni eða oftar á ári.