Fiskiðjan Bylgja í Ólafsvík hefur sagt upp þrjátíu starfsmönnum og var þeim tilkynnt þessi ákvörðun fyrir síðustu mánaðamót.
Morgunblaðið greinir frá þessu í blaði dagsins.
Þar segir að uppsagnirnar taki gildi eftir einn til þrjá mánuði, misjafnt eftir starfstíma, en á næstu vikum verður unnið að lausn á rekstrarvanda fyrirtækisins.
Kemur fram að fyrirtækið kaupir allan fisk á fiskmarkaði og vinnur í Ólafsvík, en er ekki með eigin útgerð. Fyrir um tveimur árum greip fyrirtækið til sambærilegra aðgerða og sagði upp starfsfólki, en þá tókst að koma í veg fyrir að uppsagnirnar kæmu til framkvæmda, segir í frétt blaðsins.
Á heimasíðu fyrirtækisins segir að daglega berist fiskur frá fiskmörkuðum landsmanna til fyrirtækisins og eru afurðir frystar og seldar áfram til neytenda erlendis í Evrópu og á Norðurlöndum.
Þar segir að fyrirtækið hafi skapar tæplega 50 störf en sem mest hafa 70 starfsmenn starfað hjá fyrirtækinu, svo ljóst má vera að um meirihluta starfsmanna fyrirtækisins er að ræða.
Í síðasta mánuði var tilkynnt um aðra hópuppsögn fyrirtækis í sjávarútvegi sem kaupir sinn afla á markaði – en Frostfiskur í Þorlákshöfn hyggst flytja starfsemi sína til Hafnarfjarðar og fimmtíu störf því í uppnámi á staðnum.
Ástæður þess að forsvarsmenn fyrirtækisins tóku þessa ákvörðun var að lækka kostnað, minnka flutningskostnað og komast í nýtt hús með nútímatækjum.