„Þetta er eins og undirbúningur fyrir jólin þar sem allir eru að þrífa og skreyta,“ segir forstöðumaður menningarhússins á Dalvík þar sem Fiskidagurinn mikli er loks handan við hornið.

Júlíus Júlíusson, sem stýrt hefur Fiskideginum mikla frá því að hann var fyrst haldinn árið 2001, er enn við stjórnvölinn á tuttugustu hátíðinni til þessa. Júlíus, sem kallaður er Fiskidagskóngurinn, segir mikla spennu í samfélaginu vegna fyrsta Fiskidagsins frá árinu 2019.

„Við seljum enga miða og vitum það því aldrei almennilega en reynslan hefur kennt okkur að af fyrirspurnum að dæma sé áhuginn núna mjög mikill og við eigum von á mörgum gestum,“ svarar Júlíus spurður um væntanlega aðsókn.

Ljóst er því að mannskapurinn er orðinn óþreyjufullur að taka upp þráðinn að nýju eftir þriggja sumra hlé á Fiskideginum sem að þessu sinni ber upp á 12. ágúst.

Allir þessir gömlu og margir nýir

Júlíus kveðst hafa heyrt að erfitt og jafnvel ókleift hafi reynst eftir Covid-árin að taka upp að nýju ýmsa aðra svipaða viðburði í kring um landið sem byggt hafi á sjálfboðavinnu.

„En við finnum alls ekki neitt fyrir því hér,“ segir Júlíus og nefnir til dæmis súpukvöldið á föstudeginum þar sem heimamenn bjóði gestum til sín í fiskisúpu sem hver gerir eftir sínu höfði. „Þar er fullt af nýju fólki og þessir gömlu eru með.“

Hinn eiginlegi Fiskidagur er á laugardeginum þar sem boðið er upp á margvíslega fiskrétti sem eru breytilegir á milli hátíða. Af matseðlinum fyrir komandi hátíð að dæma verður bleikja áberandi. Einnig má nefna langreyði frá Hval hf. Það er Friðrik V sem er yfirkokkur.

Stórtónleikar snúa aftur

Síðustu sautján hátíðir hefur Skarphéðinn Ásbjörnsson sett upp einstaka fiskasýningu ásamt bróður sínum, Ægi Ásbjörnssyni, og verða þeir með sitt framlag sem fyrr. Margir aðrir viðburðir verða á dagskránni.

Fiskasýningin dregur marga að. Mynd/Aðsend
Fiskasýningin dregur marga að. Mynd/Aðsend

Stórtónleikar og flugeldasýning sem Samherji hefur boðið upp frá árinu 2013 þegar fyrirtækið varð þrjátíu ára verða að vanda á laugardagskvöldinu. Samherji er einn af fimmtán stærstu styrktaraðilum Fiskidagsins en alls eru styrktaraðilarnir 137 að sögn Júlíusar. Að framkvæmdinni koma síðan þrjú hundruð sjálfboðaliðar. „Þetta er risadæmi,“ bendir Fiskidagskóngurinn á.

„Það er allur bærinn undir og allir að gera það sem þeir geta til þess að láta daginn verða sem glæsilegastan og fjölbreyttastan,“ segir Björk Hólm Þorsteinsdóttir, forstöðumaður safna og menningarhússins Bergs á Dalvík.

Allir stilltir inn á Fiskidaginn

Björk Hólm Þorsteinsdóttir, forstöðumaður safna og Menningarhússins Bergs.
Björk Hólm Þorsteinsdóttir, forstöðumaður safna og Menningarhússins Bergs.

Allir Dalvíkingar eru nú að sögn Bjarkar stilltir inn á Fiskidaginn og leggja sitt af mörkum.

„Þetta er eins og undirbúningur fyrir jólin þar sem allir eru að þrífa og skreyta. Það er ótrúlega mikið af fólki sem kemur að því að láta þetta allt ganga upp,“ segir Björk.

Hlutverk Bjarkar er meðal annars að halda utan um útimarkað og götusölu. „Þetta er fyrst og fremst handverk sem heimafólk er að skapa,“ segir hún um það sem þar verður á boðstólum.

Stemningin á Dalvík hefst talsvert fyrir hátíðina sjálfa að sögn Bjarkar sem kveður bæinn byrja að fyllast um miðja vikuna af hjólhýsum og tjöldum. „Aðdragandinn er orðinn  stór partur af viðburðinum.“