Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis samþykkti fyrir jól lagabreytingu um fiskeldisgjald og fer það úr 3,5% af verði eldislax á alþjóðlegum markaði í 4,3%. Áður hafði fjármálaráðherra lagt til að gjaldið yrði 5%.
Tekjur ríkissjóðs af gjaldinu eru áætlaðar 2,1 milljarður árið 2024 sem er hið sama og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi þrátt fyrir minni hækkun fiskeldisgjalds en upphaflega var gert ráð fyrir. Í áliti meirihluta fjárlaganefndar segir að ástæðan sé sú að talsverður munur sé á áætlaðri framleiðslu samkvæmt tölum frá MAST annars vegar og fiskeldisfyrirtækjum hins vegar.