Gert er ráð fyrir að framleiðsla í fiskeldi hér á landi verði um 7.400 tonn á árinu 2012. Útflutningsverðmæti í fiskeldinu er á bilinu 4,5 til 5 milljarðar króna. Auk þess er sala innanlands á laxi og bleikju um þúsund tonn sem skilar 850 til 1000 milljónum króna. Aukningin í eldinu er fyrst og fremst í laxeldi, en einnig er eldi á bleikju og regnbogasilungi að aukast.

Þetta kemur fram í frétt frá Landssambandi fiskeldisstöðva í dag. Þar er sagt að útflutningstekjur hafi um tvöfaldast á nokkrum árum. Aukningin er mest í laxinum og regnbogasilungi á Vestfjörðum. Vottun og sérstaða fiskeldis á Íslandi hefur skilað verðmætari afurðum inn í matvöruverslanir erlendis sem leggja áherslu á sjálfbærni og hollustu, það eru þættir sem leggja verður frekari rækt við til að styrkja stöðu fiskeldis á Íslandi í harðri samkeppninni á alþjóðlegum mörkuðum.

Þá er bent á að útflutningur á frjóvguðum laxahrognum hafi aukist undanfarin ár og skili  ríflega milljarði króna í útflutningstekjur á þessu ári.

Landssamband fiskeldisstöðva birtir nú stefnu sína varðandi eldi í sjókvíum þar sem tekið er á mikilvægum þáttum sem þarf að hafa í huga við uppbyggingu fiskeldis í sjó til framtíðar.

Sjá greinargerð HÉR.