Heimsmarkaður fyrir fiskeldi er talinn verða um 203 milljarðar dollara á árinu 2020 samkvæmt nýrri rannsókn og skýrslu Grand View Research, Inc í Kaliforníu.

Um 203 milljarðar dollara samsvara rúmum 27 þúsund milljörðum íslenskra króna. Til að setja þessa tölu í samhengi þá gæti velta fiskeldis í heiminum jafngilt samanlögðum útflutningi sjávarafurða frá Íslandi í um það bil 100 ár.

Hér er orðið fiskeldi notað sem samheiti yfir fjölbreytt eldi og ræktun fiska, lindýra og skeldýra í ferskvatni eða sjó svo og yfir ræktun gróðurs til manneldis.

Aukin vitund neytenda um hollustu fisks er talin vera ein aðal driffjöðrin í vexti fiskeldis. Skortur á framboði af villtum fiski ýtir einnig undir vöxt fiskeldis.

Í skýrslunni er spáð miklum vexti í sameldi, þar sem fiskur er alinn á hrísgrjónaökrum. Fiskurinn nýtur góðs af því sem fellur til við hrísgrjónaræktina. Í staðinn verndar fiskurinn hrísgrjónaplöntuna fyrir ýmsum sníkjudýrum. Fiskurinn þyrlar einnig upp næringarefnum og gerir þau aðgengilegri fyrir hrísgrjónin.