Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. vinnur nú að matsáætlun fyrir 6.800 tonna eldi á regnbogasilungi á þremur stöðum í Ísafjarðardjúpi. Þetta kom fram á fjölmennum kynningarfundi Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf., um fiskeldi sem haldinn var á Ísafirði í gær og sagt er frá á vefnum bb.is.

Í erindi Shiran Þórissonar, frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, um hagræn áhrif fiskeldis kom fram að eldið geti skapað 140 störf. Töluna finnur Shiran út með því að bera saman eldisáform HG og reynslu Íra. HG hyggst fara í lífrænt vottað eldi sambærilegt við það sem er stundað á Írlandi. Á Írlandi skapast um skapast um 19 störf á hver 1000 tonn í eldi. Lífrænt vottað eldi er mannaflsfrekara en „massaeldi“ en skilar hærra afurðaverði.

Að sögn Kristjáns G. Jóakimssonar, verkefnisstjóra fiskeldis hjá HG, verða eldiskvíarnar á þremur stöðum; undir Skarðshlíð í mynni Skötufjarðar, undir Bæjarhlíð fyrir innan Æðey og í mynni Mjóafjarðar og Ísafjarðar. Eldið verður árgangaskipt sem þýðir að eitt svæði er ávallt í hvíld til að minnka umhverfisáhrif eins og úrgangssöfnun. Seiðaeldi verður á Nauteyri og slátrun mun fara fram í Súðavík.