Það er Íslendingum mjög mikilvægt að geta skilgreint þá stofna fiska og sjávardýra sem tilheyra Íslandi og má því flokka sem auðlind Íslendinga. Ef Ísland gengur í  Evrópusambandið er þetta mikilvægara en nokkru sinni, segir í frétt á vef Matís.

,,Í fiskveiðistjórnun er afar mikilvægt að vita hvort um breytilega stofna eða stofneiningar af ákveðinni tegund er að ræða þegar verið er að úthluta veiðileyfum. Á þessu sviði getur erfðagreining verið lykiltæki,” segir ennfremur á vefnum.

Hjá Matís hafa verið þróuð ný erfðamörk fyrir margar tegundir sjávardýra (þorsk, síld, leturhumar, krækling og lax) og í öðrum tegundum hefur erfðamörkum sem þekkt eru verið breytt til að gera vinnuna hagkvæmari.
Í stofngreiningarannsóknum er skoðaður breytileiki í arfgerðum dýra frá mismunandi svæðum. Þegar hafa verið teknar afdrifaríkar ákvarðanir byggðar á erfðafræðigögnum eins og til dæmis um karfann við Ísland.

,,Það ætti því að vera forgangsatriði í hafrannsóknum Íslendinga að skilgreina þá erfðaauðlind sem tilheyrir landinu. Það er einnig í samræmi við alþjóðlegar samþykktir sem Ísland hefur skrifað undir að ábyrgjast varðveislu erfðaauðlinda sinna,” segir á vef Matís.

Nánar á vef Matís.