Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum októbermánuði, metinn á föstu verði, var 3,3% meiri en í október 2012, segir í frétt á vef Hagstofu Íslands. Afli mældur í tonnum minnkaði hins vegar um 11,4% milli ára, fór úr 99 þús. tonnum í 88 þús. tonn.

Útskýring Hagstofunnar er þessu: Afli á föstu verði er reiknaður út til þess að finna breytingu á verðmæti heildaraflans að gefinni þeirri forsendu að verðhlutföll milli einstakra fisktegunda séu þau sömu og á ákveðnu viðmiðunartímabili sem hér er fiskveiðiárið 2011-2012. Hér er því um að ræða hliðstæðu við umreikning á afla yfir í þorskígildi. Aflinn í tonnum sýnir hins vegar magn aflans án tillits til þess að fisktegundir eru misjafnlega verðmætar.

Það sem af er árinu veiddist 3,1% meiri afli en á sama tímabili árið 2012, sé aflinn metinn á föstu verði.

Sé litið á afla í tonnum dróst botnfiskaflinn í október saman um 1.300 tonn og uppsjávaraflinn um rúm 10 þús. tonn.

Sjá nánar á vef Hagstofunnar.