Verið er að skipta um aðalvél í Cabo de Hornos, verksmiðjutogara Pesca Chile, þar sem Þór Einarsson er skipstjóri. Það er því talsvert frí framundan hjá Þór frá sjómennsku sem hann segir svo sem ekkert nýtt því nú orðið er hann í fríi í fimm til sex mánuði á ári yfir sumartímann í Chile. Og nú er vor og sumar framundan á þeim slóðum þegar skammdegið og byljirnir eru hvað grimmastir á gamla föðurlandinu hans. Rætt var við Þór í jólablaði Fiskifrétta og birtist frásögnin hér í vefútgáfunni í þremur pörtum.

Þór hefur búið skammt frá borginni Concepción í miðhluta Chile frá árinu 1993 og allan þann tíma verið skipstjóri á togurum Friosur og nú Pesca Chile, dótturfélagi Friosur.

„Það hefur verið mikið um vélarbilanir hjá okkur síðastliðin tvö ár. Við vorum tíu daga í vélarstoppi í júní og þetta hefur verið erfitt undanfarin tvö til þrjú ár. Vélin er úr sér gengin enda er hún jafngömul skipinu, 50 ára gömul,“ segir Þór.

Ætti frekar að skipta út skipinu en vélinni

Cabo de Hornos er 80 metra langur og tæplega 14 metra breiður verksmiðjutogari, var áður í eigu Friosur og hefur alla sína tíð verið gerður út frá Chile. „Ég skil reyndar ekkert í útgerðinni að skipta ekki frekar út skipinu en vél inni og standa í svona æfingum. Næst hrynur spilið og svo gefur þetta sig eitt af öðru í svo gömlu skipi. Þarna er verið að spara aurinn og kasta krónunni, finnst mér.“

Þór fæddist árið 1957 í Vestmannaeyjum en varði ungdómsárunum í Raufarhöfn. Þar bjó hann allt þar til hann hóf nám í Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1976. Skólagöngunni lauk þremur árum seinna með fiskimanna- og farmannagráðu. Í sumarfríunum var hann háseti á skuttogaranum Rauðanúp ÞH og síðar 2. stýrimaður. Rauðinúpur var gerður út frá Raufarhöfn og var einn af Japanstogurunum tíu sem hingað komu árið 1973. Rauðinúpur var seldur til Rússlands 1997 og heitir nú Askur, með heimahöfn á Sakhalín-eyju.

Þór segir alltaf vont sjóveður í Suður-Chile. Myndin er tekin úr brúnni á Horno de Cabos.
Þór segir alltaf vont sjóveður í Suður-Chile. Myndin er tekin úr brúnni á Horno de Cabos.

Mállaus í Chile

Að námi loknu var Þór meðal annars á Sjávarborg GK frá Sandgerði og Andey SH frá Hornafirði. Ákveðin tímamót voru í lífi Þórs árið 1993. Hann var að skilja við eiginkonu sína og alls ekki fráhverfur því að taka nýja stefnu í lífsins vegferð. Einmitt um þetta leyti rakst hann á auglýsingu í Morgunblaðinu. „Friosur vantaði mann sem þekkti eitthvað til veiða með flottrolli. Auglýsingin var óbeint í gegnum Granda hf. sem þá var í eigandahóp fyrirtækisins. Grandi sá um ráðningarviðtalið og leysti mig svo út með farmiða til Chile. Ákvörðunin var stór á sínum tíma en í sjálfu sér ekkert erfið. Þetta var samningur til eins árs sem síðan hefur verið framlengdur á hverju ári. Ég var gersamlega mállaus þegar ég kom fyrst út til Chile.

Málleysið var það erfiðasta við þessi umskipti því hérna úti talaði heldur enginn ensku. Það var því ekkert annað í boði en að læra málið og það með hraði. Ég var í fjóra daga í Chacabuco í höfuðstöðvum Friosur og svo var ég bara sendur út á sjó. Ég vildi vita hvernig ég ætti að fara að þessu án þess að tala málið og þá var mér sagt að ég væri skipstjórinn og yrði að leysa það mál eins og önnur. Svo fór í þessum fyrsta túr að ég dró iðulega ýsur uppi í brú með orðabókina á bringunni.“

Að læra að telja

Þór var settur yfir gömlum austur-þýskum togara í eigu Friosur, skipi sem lítið hafði fiskast á. Vandi hans var ekki síst sá að hann þurfti að kalla niður til þeirra í spilhúsinu víralengdina þegar verið var að hífa eða slaka. Forgangs verkefni var því að læra að telja á spænsku. „En við kom um samt með fullt skip af fiski í land, hvernig sem við fórum nú að því. Þeir spurðu mig hvernig ég færi að þessu því ekki höfðu þeir reiknað með miklu. Ég var ekkert að útskýra það í smáatriðum og vissi sem var að þetta mátti þakka þeirri reynslu sem ég hafði aflað mér á Íslandsmiðum.“

Þór fetaði sig áfram. Hann leitaði í landgrunnsköntunum og smám saman náði hann góðum tökum á verkefninu. „Ekki hjálpuðu heimamenn mér mikið, þá á ég við aðra skipstjóra hjá fyrirtækinu. Frekar lugu þeir einhverri vitleysu að mér. „Ef þið viljið vinna svona þá vinnum við bara svona,“ voru skilaboð mín til þeirra.“

Og þessa þrjá áratugi sem Þór hefur róið til fiskjar í chileskum sjó hefur hann fiskað eftir eigin höfði. Og fiskað vel.