FISK Seafood á Sauðárkróki hefur bæst í hóp þeirra fyrirtækja sem tekið hafa í notkun nýjustu tækni í fiskvinnslu. Fyrirtækið hefur gengið frá kaupum á FleXicut vatnskurðarvél frá Marel ásamt sjálfvirkri afurðardreifingu og nýjustu gerð ferskfiskflokkara. FleXicut vatnskurðarvélin sker beingarð úr ferskum þorsk, ýsu og karfaflökum, hlutar þau niður í bita eftir ákveðnum skurðarmynstrum með mikilli nákvæmni með eða án roðs.
Eftir skurðarvélinni kemur sjálfvirk beingarðs frátaka. Þá er sjálfvirk flokkun á afurðum eftir skurðinn þar sem hægt er að skilja sporð, hnakka og þunnildi frá hvoru öðru og senda inn á t.d. frystir eða pökkunarflokkara.
Einnig er í kaupunum ferskfiskflokkari sem er nýr sinnar tegundar hjá Marel þar sem notast er við stutt færibönd á lofttjökkum í stað hefðbundinna arma á flokkara. Færiböndin flytja þá afurðarhlutana á pökkunarstöðvar með sem minnstu hnjaski á leiðinni í lokapakkninguna.
Fisk Seafood var fyrst fyrirtækja til að prufa frumgerð af FleXicut skurðarvél fyrir Sjávarútvegssýninguna í Brussel 2014 og voru þær prufanir mikilvægar fyrir þróun á vélinni fyrir Marel, segir í frétt frá Marel.
FleXicut vatnsskurðarvélin ásamt flokkaranum og öðrum búnaði verður settur upp í fiskvinnslu Fisk Seafood á Sauðárkróki í október næstkomandi.
Sjá nánar á vef Marel.