First Water og Micro/Klaki hafa komist að samkomulagi um kaup First Water á stöflunarróbót. Kaupin voru undirrituð á síðasta degi sjávarútvegssýningar sem nú fer fram í Barcelona á Spáni, hvar fjöldi Íslenskra fyrirtækja kynnir afurðir sínar fyrir alþjóðlegum mörkuðum.
Róbótinn mun sjá um að stafla kössum á pallettur í vinnsluhúsi First Water að Óseyrarbraut í Þorlákshöfn, þar sem undirbúningur fyrir að hefja vinnslu er í fullum gangi, en þar vinna fyrirtækin einnig saman að uppsetningu tímabundins vinnsluhúss. Húsið að Óseyrarbraut mun þjóna First Water þangað til nýtt og glæsilegt hús verður tekið í notkun að Laxabraut þar sem eldisker fyrirtækisins eru staðsett og höfuðstöðvar félagsins munu rísa.