,,Það hefur verið fínasta veiði hér í Faxaflóanum síðan í gærkvöldi. Hér eru átta skip að veiðum og nokkur til viðbótar eru á siglingu með afla til löndunar,” sagði Hörður Már Guðmundsson skipstjóri á Þorsteini ÞH þegar Fiskifréttir náðu tali af honum fyrir hádegi í dag en skipið er gert út af Ísfélagi Vestmannaeyja.

,,Loðnukvóti Ísfélagsins fer senn að klárast. Fjögur Ísfélagsskip eru hér á miðunum núna. Við erum búnir að taka okkar skammt og erum að dæla í Guðmund VE. Þá er Júpíter ÞH að fylla sig og Álsey VE er langt komin með að fylla sig líka,” sagði Hörður Már.

Hrognahlutfall loðnunnar í Faxaflóanum var komið í 26% í gær sem er mjög ákjósanlegt fyrir hrognatökuna.

Nú fer brátt að sjá fyrir endann á loðnuvertíðinni. Ísfélagið, sem er með stærsta loðnukvótann, er langt komið með sínar aflaheimildir eins og áður sagði. Þá er næststærsti kvótahafinn, HB Grandi, sömuleiðis á síðustu metrunum en á heimasíðu fyrirtækisins fyrir helgina kom fram að aðeins væri eftir kvóti sem jafngilti einni veiðiferð á hvert uppsjávarskip. Þá má nefna að Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum er við það að klára sinn kvóta.

Veður til loðnuveiða hefur verið rysjótt upp á síðkastið en samt virðist útgerðunum ætla að takast að ná bróðurpartinum af kvóta sínum í hrognavinnslu eins og stefnt var að, auk heilfrystingar á hrognaloðnu.