„Hér er spænurok og fer upp í 30 metra í kviðunum,“ sagði Ólafur Óskar Stefánsson 2. stýrimaður á loðnuskipinu Sighvati Bjarnasyni VE þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn núna upp úr klukkan 13 í dag. Skipið var þá í vari norðan við Snæfellsnes ásamt Berki NK, Huginn VE, Sigurði VE og færeysku skipunum Fagrabergi og Jupiter.

„Það var fín loðnuveiði í gær. Skipin voru að veiða úr feiknastórri torfu rétt utan við Öndverðarnes og fengu góð köst. Loðnan virðist eiga einhverja daga eftir í hrygningu,“ sagði Ólafur Óskar.

Meðal þeirra skipa sem fylltu sig í gær voru Kap VE og Ísleifur VE sem nú eru á heimleið með aflann en eru í vari við Garðskagann vegna veðurs. Þar eru einnig Álsey VE, Heimaey VE og fleiri skip.

„Við erum í síðasta túr og svipað gildir um önnur skip Vinnslustöðvarinnar. Vonandi klárum við þetta á morgun, en veðurspáin er ágæt fyrir morgundaginn og miðvikudaginn,“ sagði Ólafur Óskar Stefánsson.