„Það er ágætisloðna hérna suður af Snæfellsnesinu. Við erum nýkomnir hingað og erum á fyrsta kasti en það var mokveiði hér í gær. Mér skilst að loðnan á þessum slóðum sé það langt gengin að hún sé að verða óhentug fyrir Japansfrystingu. Það er komin 24% hrognafylling í hana og 60% los þannig að hrognin eru farin að renna í henni. Því má búast við að flotinn fari að snúa sér að því að taka í hrognavinnslu,“ sagði Jóhannes Danner skipstjóri á Jónu Eðvalds SF þegar Fiskifréttir höfðu samband við hann í morgun.

Að sögn Jóhannesar köstuðu þeir undir myrkur í gær úti af Reykjanesi og fengu 240 tonn en sú loðna var ekki eins langt komin að hrygningu og loðnan sem nú fæst sunnan við Snæfellsnes.

Í fyrradag var bræla á loðnumiðunum og þá gátu skipin ekkert athafnað sig en í gær var veiðiveður og sömuleiðis dag þrátt fyrir gjólu.

„Hið óvenjulega við þessa vertíð er það hversu mjög loðnan er dreifð. Að það skuli ekki vera ein stór ganga heldur margar spýjur. Blettirnir sem veitt er úr eru ekki stórir en þeir gefa vel,“ sagði Jóhannes.