Fín veiði hefur verið á línu hjá Einhamarsbátunum Auði Vésteins SU og Gísla Súrssyni GK það sem af er þessu hausti. Þeir hafa verið að fá allt frá 8 og upp í 18 tonn í róðri að undanförnu af velhöldnum fisk sem hefur verið í miklu æti. Haukur Einarsson, skipstjóri á Auði Vésteins, segir létt yfir mönnum ekki síst þar sem afkoman hefur batnað mikið með hækkandi fiskverði.

Auður Vésteins og Gísli Súrsson gera út frá Stöðvarfirði og fyrrnefndi báturinn er meira að segja skráður þar. Farið er til veiða alveg 40 mílur út af Stöðvarfirði og hefur verið fínasta fiskirí þar undanfarið.

Afar dapurt í sumar

„Þetta var búið að vera lélegt í sumar. Við komum hingað austur um miðjan júlí og var ágætt í byrjun en svo dregur alltaf úr veiðinni og hún fer ekki að glæðast aftur fyrr en í ágúst. Það hefur verið mikið af síld og makríl á svæðinu og því verið frekar erfitt fyrir línuveiðar. Fiskurinn er ekki að bera sig eftir krókum þegar steikin er syndandi allt í kring,“ segir Haukur.

Haukur hefur verið mörg undanfarin sumur við veiðar fyrir austan og að hans mati var síðasta sumar það lélegasta frá upphafi. Ástæðan var þetta mikla æti alls staðar í sjónum og auk þess hafi fiskverð verið í algjöru lágmarki. En allt sé þetta á uppleið núna.

Fiskverð hefur hækkað talsvert að undanförnu en Haukur segir útlitið ekki hafa verið björgulegt í sumar hvað það varðar.

„Þegar frjálsar handveiðar byrja lækkar fiskverð strax á mörkuðunum og þarna er ég að vísa í strandveiðarnar. Þær hafa bein áhrif á atvinnu manna á sjó. Strandveiðarnar hafa lækkað tekjur þeirra sem hafa fulla atvinnu af fiskveiðum. Oft eru þetta verslunareigendur og flugstjórar sem eru að leika sér í sumarfríunum sínum en hafa bein áhrif með veiðunum á launin okkar.“

2.000 tonn á síðasta fiskveiðiári

Undanfarið hefur fiskast frá 8-9 tonnum og allt upp í 18 tonn í róðri. Haukur segir að þessi góða veiði sé þó raunar bara svipuð og á sama tíma í fyrra. Auður Vésteins veiddi tæplega 2.000 tonn á síðasta fiskveiðiári.

„Það er svipuð veiði hjá Gísla Súrssyni. Þetta eru nákvæmlega eins bátar og við erum yfirleitt á svipuðum miðum. Ég held að það munað 80-100 tonnum á okkur á síðasta fiskveiðiári. En það er alltaf  samkeppni. Ef við erum með 17 tonn eftir daginn en þeir 17,1 tonn þá dagurinn ónýtur fyrir okkur,“ segir Haukur.

Bátarnir halda til fyrir austan hátt í níu mánuði enda séu aðalmiðin Austfjarðamiðin. Hann segir að þótt áhöfnin sé skráð til heimilis í Grindavík líti menn orðið á sig sem heimamenn á Stöðvarfirði. Einhamar keypti gamla pósthúsið á Stöðvarfirði og þar halda menn gjarnan til  í miklum þægindum þegar gerir brælur. Ekki að það væsi um neinn í bátnum. Ef farið er inn til Norðfjarðar er búið um borð. 7 eru í áhöfn bátanna en fjórir í hverju úthaldi. Menn fari gjarnan suður í sínum fríum. Stöðvarfjörður sé lítill bær en þar sé gott að vera. Auk þess sé staðurinn fyrir miðju miðanna.