Þegar Barði NK og Beitir NK höfðu lokið makrílveiðum í síðustu viku héldu þeir til kolmunnaveiða. Veiðarnar gengu vel og kom Barði til löndunar í Neskaupstað í gærmorgun með 1.800 tonn og Beitir kom í gærkvöldi með um 2.600 tonn. Hluti af afla Beitis var kældur og verður hann tekinn til frystingar í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Sjálfsagt þykir að frysta kolmunnann í tilraunaskyni enda er fiskurinn stór, töluverð fita í honum og skammt á miðin.

„Við héldum til veiða þann 21. ágúst og vorum einungis fjóran og hálfan sólarhring í túrnum höfn í höfn. Við hófum veiðarnar djúpt í Hvalbakshallinu og síðan var veitt í Rósagarðinum. Aflann fengum við í sex holum og var venjulega dregið í um tíu tíma. Holin gáfu á bilinu 220-350 tonn. Það var semsagt mjög góð veiði og veðrið hjálpaði til, en það var blíða allan tímann. Fiskurinn sem þarna fæst er stór og fallegur,” sagði Theodór Haraldsson skipstjóri á Barða á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Ólafur Gunnar Guðnason, skipstjóri á Beiti, var mjög ánægður með kolmunnaveiðina. „Þetta gekk eins og í sögu og hafa verður í huga að í seinni tíð hefur kolmunnaveiðin ekki hafist fyrr en seint í septembermánuði. Uppistaðan í aflanum hjá okkur kom í sex holum og fengust 360-460 tonn í holi en dregið var í sex og hálfan til tólf tíma. Það var gott veður á miðunum en það brældi rétt áður en haldið var í land. Við erum með 460 tonn kæld og vinnsla á þeim afla hófst strax og í land var komið. Það er lúxus að veiða kolmunna á þessu svæði en það voru einungis 70-80 mílur í Norðfjarðarhornið þegar lagt var af stað í land,” sagði Ólafur Gunnar.

Ekki verið fryst frá 2012

Strax og Barði kom í land í gærmorgun hófst vinnsla á afla hans í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri sagði að stóra verksmiðjueiningin hefði strax farið í gang þegar kolmunninn barst en litla einingin hefur séð um alla vinnslu á makrílvertíðinni. Hafþór sagði að kolmunninn væri úrvalshráefni enda væri fiskurinn stór og í honum væri um 6% fita.

Oddur Einarsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, var einnig afar ánægður með kolmunnann sem hráefni. „Vinnslan hjá okkur hófst í gærkvöldi þegar Beitir kom og gengur vel. Kolmunninn er heilfrystur og um er að ræða stóran og fallegan fisk. Kolmunni hefur ekki verið frystur hérna síðan árið 2012. Það skiptir miklu máli að veiðin fer fram örskammt frá okkur – skipin eru einungis sex tíma í land frá miðunum og aflinn sem við vinnum er mjög vel kældur. Þá býr starfsfólk hér yfir mikilli þekkingu frá fyrri tíð og kann vel til verka og það skiptir ótrúlega miklu máli,” sagði Oddur.