Talið er að um fimmtán þúsund eldislaxar hafa sloppið er gat kom á sjókví hjá fyrirtækinu Lerøy Midt AS í Aukra í Noregi.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Lerøy kom gatið í ljós við reglubundið eftirlit sunnudaginn 5. janúar. Net hafi verið lögð til að draga úr mögulegum afleiðingum þess að laxar sluppu úr kvínni. Segir að fyrirtækið eigi í góðu samstarfi um málið við viðeigandi aðila og yfirvöld.

Finni til ábyrgðar gagnvart umhverfinu

„Við einblínum á að takast á við stöðuna á ábyrgan og skilvirkan hátt,“ segir í tilkynningu Lerøy sem kveðst líta alvarlegum augum á allar skemmdir á kvíunum og harma á ítrasta hátt það sem gerst hafi.

„Við finnum til mikillar ábyrgðar gagnvart umhverfinu og gerum allt sem við getum til að takmarka afleiðingarnar,“ segir Harald Larssen, rekstrarstjóri hjá Lerøy, í tilkynningunni.

Kerfisbundnar lagfæringar

Laxarnir sem sluppu eru um 1,5 kíló að þyngd og tekið er fram að um sé að ræða góðan fisk sem óhætt sé að borða. Skemmda netið í kvínni hafi verið tekið upp til skoðunar í þjónustustöð Lerøy í Kristiansund.

Haft er áfram eftir Harald Larssen að markmið Lerøy sé að engir fiskar sleppi og að unnið sé að því á hverjum degi að slíkt hendi. „Það felur í sér fjárfestingu í tækni, stöðugri menntun starfsmanna og kerfisbundnar lagfæringar á okkar ferlum,“ segir hann. Lerøy muni grípa til nauðsynlegra ráðstafana á grundvelli þess lærdóms sem draga megi af óhappinu í Aukra.