„Þetta hefur gengið ljómandi vel en það eru allir stopp núna og búnir með kvótana í byrjun desember sem er nokkru fyrr en vanalega,” segir Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA. Skipið kom úr sinni síðustu veiðiferð síðustu helgi og á leiðinni heim úr færeysku lögsögunni þar sem kolmunni var sóttur, var skyggnst um eftir loðnu úti yfir Norðausturlandi.

Guðmundur fór yfir almanaksárið sem byrjaði með loðnuveiðum strax í febrúar. „Við tókum allt í nót. Meiningin var að spara sér kvótann því hann kom allt of seint. Ég vil að það verði farið að gefa út jafnstöðukvóta, 150 þúsund tonn, og svo geta menn bætt við ef útlit er fyrir mikla meira af loðnu. Þannig væri hægt að hefja veiðarnar fyrr og þetta yrði betra með tilliti til markaðarins. En ef það yrði gefinn út 150 þúsund tonna kvóti færi þó ekki nema 80 þúsund tonn til íslenskra skipa,“ bendir Guðmundur á.

Af loðnu á kolmunna og makríl

Vilhelm Þorsteinsson EA, sem er eitt afkastamesta uppsjávarskipið í íslenska flotanum, var með um 21 þúsund tonn á þessari loðnuvertíð sem lauk upp úr miðjum mars. Var þá haldið á kolmunnaveiðar í íslenskri og færeyskri lögsögu. Þrír túrar voru farnir í apríl og einn í maí. Síðasti túrinn og restin af kvótanum var svo tekinn núna í desember og var afraksturinn í þeim túr 2.500 tonn.

Yfir sumarið var samstarf með Vilhelm Þorsteinssyni EA, Margréti EA, Barða NK, Beiti NK og Berki NK við makrílveiðar sem fóru að talsverðu leyti innan íslensku lögsögunnar.

„Þetta var betri vertíð en maður átti von á. Makríllinn var í íslenskum sjó núna eins og kolmunninn var líka í sumar og það er bara góðs viti. Það er fínt upp á samningsstöðu okkar um þessa deilistofna og ekki skemmdi fyrir hve stutt var á miðin. Við lönduðum sjálfir um 8.700 tonnum og þá teljum við ekki með það sem fór í samstarfsskipin.“

Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri.
Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri.
© Þorgeir Baldursson (.)

„Hún kemur loðnan“

Farnir voru fjórir túrar í norsk-íslensku síldina sem tók við af makrílnum og þá var kvótinn búinn hjá þessu afkastamikla skipi með burðargetu vel yfir þrjú þúsund tonn í þrettán lestartönkum. Það var ekki langt að sækja þá norsk-íslensku sem veiddist að mestu leyti í Héraðsflóa og Bakkaflóa. Aflinn í fjórum túrum var tæp 6 þúsund tonn og var m.a. siglt með aflann til Noregs þar sem fengust ágæt verð.

Farnir voru þrír túrar á íslensku síldina fyrir vestan land. Siglingatíminn á miðin frá Norðfirði þar sem Vilhelm Þorsteinsson EA landar, var 40-45 klukkustundir. „Íslenska síldin er á uppleið og ég held að það sé alveg óhætt að gefa út meiri kvóta í henni.“

Sem fyrr segir kom Vilhelm Þorsteinsson EA til heimahafnar á Akureyri fyrir síðustu helgi eftir lokatúrinn í kolmunna. Á heimleið var skyggnst eftir loðnu. Guðmundur segir að þeir hafi lítið orðið varir enda loðnan tæplega komin svo austarlega. Eitthvað aðeins sást til loðnu vestast á svæðinu en það var lítið magn.

„En hún kemur loðnan og það verður loðnuvertíð en ég veit ekki hversu mikið það verður.“